Menu

Fyrstu skrefin sem jógaiðkandi

Ég hóf iðkun árið 2000, fyrstu kynni mín við einhverskonar jóga iðkun var Innhverf Íhugun, þessi kynni voru stutt því hugur minn á þessum tíma var mjög eyrðarlaus en neistinn var til staðar. Á haust mánuðum 2000, fór ég í minn fyrsta jógatíma í Yogastöðinni Heilsubót, mér fannst ég vera komin heim og það vaknaði samstundis langvarandi vinátta við Sigfríði Vilhjálmsdóttur sem var eigandi Yogastöðvarinnar ásamt eiginmanni hennar Mile. Áhugi á jóga iðkun og andlegum málefnum jókst hratt og eftir 6-9 mánaða iðkun í Yogastöðinni var ég farinn að iðka heimafyrir líka, heimaiðkunin var frekar brösug og ekki mjög markmiðuð en eldurinn var í mér og ég vildi meira. Löngunin að dýpka eigin jógaiðkun var mjög sterk svo ég hætti á þriðja ári í Sálfræði við Háskóla Íslands og fluttist til Frakklands.

Árið 2002 fluttist ég til Frakklands þar sem ég ætlaði að dvelja til lengri tíma. Þetta var Śivanānda jóga miðstöð, sem er blanda af miðstöð þar sem iðkendur hafa tækifæri að iðka stíft sem og fólk kemur á styttri námskeið. Dvölin var mjög góð og ég kynntist dýpri leiðum jógaiðkunar og ég lærði mikilvægasta þátt jógaiðkunar “sjálfsaga”. Vakna kl. 5:00, 6:00-8:00 hugleiðsla/kyrjun, kl. 8:00-10:00 āsana/pranayama, 10:00-18:00 śeva (vinna án kaups), 20:00-22:00 hugleiðsla/kyrjun. Svona gekk þetta í um 9 mánuði, þetta var stíft en ánægjulegt, og ég lærði að mikilvægi þess að viðhalda daglegri iðkun, frá þessum tíma hef ég alltaf viðhaldið daglegri iðkun í jóga til dagsins í dag.

Á miðstöðinni kynntist ég konunni minni, Talyu Freeman. Við áttum einkar vel saman frá fyrsta degi enda er Talya einstök manneskja, og áhuginn á jóga iðkun  og öðrum andlegum málefnum var hinn sami.

Talya kynnti mig fyrir Kriya yoga sem er forn hugleiðsluaðferð. Ég lærði Kriya fyrst árið 2003 í London, af Peter Van Breukelen, ég fann strax náið samband við Kriya yoga sem mikilvægt verkfæri í þróun minni sem hugleiðandi og gott samband við Kriya kennaranna. Á næstu árum komu Peter og annar Kriya kennari sem heitir Swami Mangalananda og dvöldu hjá okkur og kenndu Kriya yoga til áhugasamra á Íslandi.

Á árunum 2002 – 2003 ferðuðumst ég og Talya á ýmsar jógamiðstöðvar og kynntumst ýmsum aśram (samfélög iðkenda/klaustur) og jógamiðstöðum í evrópu sem og á Indlandi.

 

Fyrstu skrefin sem jógakennari

Árið 2004 fluttumst við Talya til Íslands, við hófum bæði jógakennslu ásamt því vann ég hjá föður mínum í byggingarvinnu.

Árið 2006 – 2008 þá tók ég kennaranám með kennara sem heitir Śiva Rea. Þetta var 200 tíma nám í því sem kallast vinyasa prana flow, þetta var stór hópur eða um 150 manns og gæði þjálfunarinnar fór eftir því, hröð matreiðsla og lítil melting. Þarna kynntist ég jóga sem markaðsfræði, Śiva var flott kona en þjálfunin var mjög þunn og það eina sem þessi þjálfun skildi eftir var þörfin að fá þjálfun sem risti dýpra, og hafði innihald.

Áhugi minn á jógaiðkun var alltaf meira í áttina að hugleiðslu og eftir þjálfunina með Śiva fannst mér hennar aðferðarfræði færa mann frá hugleiðslu. Þannig ég hélt áfram leit minni að hefð/þjálfun sem innhélt eiginleika líkamsþjálfunnar sem hefur hugleiðslueiginleika. Árið 2008 fann ég kennara sem heitir Marc Beuvain, með Mark hafði ég fundið hefð sem mér fannst endurspegla dýpri skilning á öllum hliðum jógaiðkunar.

 

Fyrstu kynni af Viniyoga

Árið 2008 hóf ég 3 ára kennaraþjálfun með Marc Beuvain, sem samanstóð af 25 ferðum til og frá London, námið var 750 tímar og gaf mér djúpa innsýn í hefð Viniyoga. Námið var einstaklega gott og þjálfunin miðaðist að mestu leyti við það sem kallast einstaklingsmiðuð iðkun (viniyoga). Ég fann hefð sem innihélt allar leiðir innan jógaþjálfunnar, asana, pranayama, dharana, dhyana, mantra, bandha og mudra. Þjálfunin innihélt eftirfarandi:

  1. Āsana sem þróun, viðhald eða þerapía
  2. Prānayama sem þróun, viðhald eða þerapía
  3. Dhyanam og dharana sem iðkun eða sem dýpri skilningur á eigin lífi
  4. Mantra sem hugleiðsla, mantra sem kyrjun á yoga sutra eða sem vedísk kyrjun
  5. Nám á yoga textum, yoga sūtra, haṭhayoga pradipika, yoga rahasaya og framvegis

Þjálfunin gerði mér kleift að þjálfa nemendur í einstaklingsmiðaðri iðkun hvort sem einstaklingur leitaði að þróun í sinni yoga iðkun, að viðhalda sinni daglegri starfsorku eða nota jóga sem þerapíu. Ég byrjaði að kenna einstaklingsmiðaða iðkun árið 2010 eftir að náminu lauk, þessi aðferðarfræði gafst vel og iðkendur fundu árangur í sinni iðkun sem og breytingu í sínu lífi.

 

Einstaklingsmiðuð þjálfun

Námið með Marc var gifurlega gott og setti grunn að því sem ég nem í dag. Ég og Talya vorum bæði að leita að kennara sem gæti aðstoðað okkur að dýpka eigin ástundun sem og kennara sem gæti fært okkur dýpra í eigin kennslu.

Paul Harvey hefur verið kennari í Viniyoga hefðinni síðan 1979. Paul lærði í 25 ár af sínum kennara, Desikachar sem var sonur Krishnamacharya. Pauls þjálfun var nær eingöngu  sem einstaklingsmiðuð iðkun, hvort sem það var hans persónulega iðkun, þjálfun í aíðferðarfræði Viniyoga eða umsjón með hans eigin nemendum.

2015 þá opnaðist sá möguleiki að nema með beint með Paul, án rammans sem kennaraþjálfun setur oft. Frá 2015 höfum við Talya haft vikulega fundi með Paul, þar sem við nemum okkar persónulegu iðkun, aðferðarfræði viniyoga sem og umsjón með okkar eigin nemendum

Að nema með Paul hefur verið einkar ákaft ferli þar sem við eigum vikulega fundi með honum ásamt því að fara reglulega til hans í Englandi, allt sem við lærum af Paul er beint í anda Viniyoga, þar sem nemandinn lærir beint af kennaranum. Þessi aðferðarfræði er einstök af því leyti, að það gefst tækifæri að kafa dýpri í það efni sem á við hverju sinni, þetta er hin beina miðlun jóga sem þekking og jóga sem iðkun sem var stunduð í árþúsundir á Indlandi.

 

Gerast Áskrifandi að fréttabréfinu okkar